SEGÐU EINHVERJUM FRÁ

SEM ÞÚ TREYSTIR

Þegar talað er um kynferðislegt ofbeldi er átt við allar kynferðislegar athafnir sem börn eða unglingar eru þvinguð/lokkuð til. Kynferðislegt ofbeldi getur verið af ýmsu tagi og felur meðal annars í sér káf og þukl innan sem utan klæða á kynfærum eða öðrum persónulegum stöðum, munnmök, samfarir eða tilraun til þeirra. Einnig kynferðislegar myndatökur, áhorf á persónulega staði, eða sýna/senda klámfengið myndefni.

Kynferðislegur lögaldur er 15 ára. Það þýðir að fyrir þann aldur eru allar kynferðislegar athafnir, með eða án vilja barnsins ólöglegar.

Mikilvægt er fyrir börn/unglinga að segja alltaf frá ef einhver beitir þau kynferðislegu ofbeldi. Best er að finna einhvern fullorðinn sem þú treystir til að segja frá. Það getur verið einhver í fjölskyldunni eins og foreldri, fullorðið systkini, amma/afi, frændi/frænka eða einhver góður fjölskylduvinur. Einhver í skólanum eins og kennari, námsráðgjafi eða hjúkrunarfræðingur. Einhver sem sinnir tómstundastörfum, íþróttaiðkun, æskulýðsstörfum og allir aðrir sem vinna með börnum/unglingum. Ef þú þekkir engan fullorðinn sem þú treystir getur þú alltaf hringt í 112 og fengið aðstoð. Mörg börn/unglingar þora ekki að segja fullorðnum frá og segja því jafnaldra eða vini frá. Þá er mikilvægt að vinurinn hjálpi þér að finna einhvern fullorðinn sem þú gætir treyst.

Hlutverk barnaverndar er að gæta hagsmuna barna/unglinga og tryggja að börn/unglingar sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Barnavernd hefur eftirlit með aðbúnaði, hátterni og uppeldisskilyrðum barna og meta þarfir þeirra sem þurfa á aðstoð að halda. Úrræðin eru fjölbreytt og geta verið bæði innan heimlis og utan. Tilkynningar berast til barnaverndar í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga um tilkynningarskyldu. Slík tilkynningarskylda hvílir á almenningi og hjá þeim sem hafa afskipti af börnum í störfum sínum og hjá lögreglu. Þegar þú hefur valið einhvern fullorðinn sem þú treystir til að segja frá kynferðislegu ofbeldi hefur sá aðili tilkynningarskyldu og þannig kemst málið í réttan farveg. Barnavernd tekur við tilkynningunni, kannar málið, aflar upplýsinga og tekur ákvörðun um framhald málsins.

Barnahús sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegu ofbeldi. Börn og foreldrar þeirra geta með tilvísun barnaverndar fengið alla þjónustu á einum stað sér að kostnaðarlausu í umhverfi sem ætlað er að veita öryggi og hlýju. Þjónusta Barnahúss felur í sér skýrslutökur og könnunarviðtöl, greiningu og meðferð, læknisskoðanir og ráðgjöf. Helsta markmið Barnahúss er að börn/unglingar geti fengið alla þjónustu á einum stað. Ef lögreglurannsókn fer fram, fer staðsetning skýrslutöku eftir ákvörðun dómara þegar börn eru 14 ára eða yngri, sem yfirleitt ákveður að koma í Barnahús en 15-17 ára unglingar fara í skýslutöku á lögreglustöð. Ef mál eru ekki kærð til lögreglu fer fram könnunarviðtal í Barnahúsi þar sem börnum/unglingum gefst kostur á að segja sögu sína. Í kjölfarið fá þau svo meðferð í Barnahúsi ef þörf er á.

Ef þú hefur sagt einhverjum fullorðnum frá kynferðislegu ofbeldi eða fengið jafnaldra eða vin til að aðstoða þig við það er sá fullorðni aðili bundinn tilkynningaskildu til barnaverndar. Sá aðili á því að hafa samband við barnavernd. Það er svo í verkahring starfsfólks barnaverndar að skoða málið frekar og ákveða í hvaða farveg málið fer. Allar ákvarðanir barnaverndar eru teknar með hagsmuni barna/unglinga að leiðarljósi og þú þarft því ekki að hafa neinar áhyggjur. Á dagvinnutíma veitir starfsólk barnaverndar um allt land upplýsingar og tekur við tilkynningum, en utan dagvinnutíma, um helgar og á helgidögum er hægt að ná í bakvakt barnaverndar í síma 112. Hér getur þú séð allar barnaverndarnefndirnar.

Ef brotið hefur verið á þér er mikilvægt að barnavernd óski eftir rannsókn lögreglu til að hindra að fleiri börn verði fyrir broti og til að gæta að réttindum þínum. Lögreglan tekur við tilkynningu og rannsakar málið. Þú færð réttargæslumann sem er þinn lögfræðingur og gætir þinna hagsmuna í gegnum allt ferlið þér að kostnaðarlausu. Ef þú ferð í skýrslutöku er réttargæslumaðurinn og barnavernd viðstödd viðtalið. Í kjölfar skýslutökunnar fá öll börn og unglingar hjálp í Barnahúsi við að vinna úr afleiðingum brotsins, bæði líðan og tilfinningum. Sjá viðtal við Ólöfu Ástu Farestveit hjá Barnahúsi https://vimeo.com/126474474

Gott að vita

  • Talaðu við einhvern sem þú treystir
  • Það eru aðilar sem geta hjálpað þér
  • Með því að segja frá geturðu unnið úr sársaukanum og orðið sterkari en áður

  • Ábyrgðin er aldrei þín
  • Ofbeldið er aldrei þér að kenna
  • Til að ofbeldið haldi ekki áfram þarftu að segja einhverjum frá

Hlutverk Vitundarvakningar er að kortleggja, samhæfa og stuðla að umfangsmiklu forvarnarstarfi um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum og stuðla að aukinni samfélagsvitund. Fræðsla og forvarnir beinast fyrst og fremst að börnum, fólki sem vinnur með börnum, réttarvörslukerfinu sem og almenningi. Vitundarvakning er samstarfsverkefni innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis.
Markmiðið með myndböndunum Leiðin áfram er að veita börnum og unglingum, foreldrum og forráðamönnum þeirra og öllum almenningi innsýn og upplýsingar um feril kynferðisbrotamála hjá réttarvörslukerfinu. Það auðveldar fyrstu skref brotaþola og/eða aðstandenda til þess að sækja þá aðstoð sem þau hafa rétt á og tilkynna ofbeldið.

Barnaverndarstofa
112
Lögreglan
Barnahús
Landspítali
Innanríkisráðuneytið
Velferðarráðuneytið
Mennta- og menningarráðuneytið
Vitundarvakning